á vormánuðum 2026

Nýrri aðstöðu Jarðbaðanna

Hönnun byggingarinnar, bæði að utan og innan ásamt lóni, hefur tekið mið af einstakri náttúru Mývatnssveitar. Tenging við umhverfið og náttúrumyndanir endurspeglast í hönnun aðstöðunnar.

Byggingin, sem er tæpir 4.000 fermetrar að stærð, er felld inn í umhverfið og grjót af svæðinu er nýtt m.a. sem farg á þak, í þakkanta, í klæðningar utanhúss, á veggi innanhúss og í terrazzo-gólf. Byggingin stendur austan við núverandi lón og verður tengd saman við það með nýju lóni sem verður mótað í kringum túffstabbaeyju, gjá og hraunklettaveggi. Gestir munu geta gengið beint ofan í lónið úr búningsklefum og ferðast um þrjú mismunandi svæði í lóninu. 

A person in a turquoise thermal pool near a modern building with stone exterior in a natural landscape.

Miklar breytingar verða gerðar á núverandi lóni

Miklar breytingar verða gerðar á núverandi lóni, t.a.m. bætt við tveimur heitum pottum, settur upp nýr og stærri bar, setsvæði verða stækkuð og aðkoma að gufubaði bætt. Með nýja lóninu bætast við upplifanir eins og grjótgufubað sem synt er inn í, foss, nýr lónsbar og gjá/hellir þar sem gestir munu ferðast í gegnum gjána til að fara yfir í stærri og opnari hluta lónsins.

Pakki 1

Grunnupplifun

Búningsklefum er skipt niður í einingar þannig að vel rúmt verður um alla gesti. Þá eru lokaðar sturtur fyrir gestina og einnig verður í boði að geyma handklæði/síma í sér munaskáp áður en farið er út í lón.

Pakki 2

Kjarnaupplifun

Aðgangur að hraunklefum, þar sem klettaveggir hafa verið nýttir sem útveggir í búningsklefa, ásamt því að hraunveggur skilur á milli kvenna- og karlaklefa. Gestir ganga svo um stórfenglegan hraunveggjagang beint út í lónið. 

Pakki 3

Kyrrðarupplifun

Einkaklefi fyrir tvo og hægt verður að panta veitingar af mat- og vínseðli arinstofunnar. Aðgangur að hvíldarherbergi og sér lóni sem eingöngu er ætlað fyrir þá gesti sem nýta einkaklefana. 

Þægindi og gæði í fyrirrúmi

Í nýju byggingunni hefur mikið verið lagt upp úr að öll aðstaða fyrir gesti sé eins og best verður á kosið. Gestir munu geta valið á milli þriggja mismunandi aðgangspakka þar sem það eru þrír mismunandi klefar og upplifanir í boði.

33% meira rými, 35% stærra lón – og glænýtt bistro

Með þessari nýju aðstöðu verður hægt að taka við u.þ.b. 580 gestum en það er um 33% aukning frá núverandi aðstöðu. Þá mun lónið einnig stækka um ca. 35% að flatarmáli frá núverandi stærð. Nýtt bistro, með ferskum réttum unnum úr hráefni úr héraði ásamt léttum matseðli, verður meðal nýjunga sem við munum bjóða upp á. Veitingasalurinn mun geta tekið 150 manns í sæti en það er sama stærð og í núverandi veitingaaðstöðu. Móttöku- og veitingasalur opnast til vesturs með útsýni yfir lónið og Mývatn. Útisvæði verður fyrir bistro-gesti til að nýta á sumardögum.